Ana Brnabić
Ana Brnabić | |
---|---|
Ана Брнабић | |
Forsætisráðherra Serbíu | |
Í embætti 29. júní 2017 – 6. febrúar 2024 | |
Forseti | Aleksandar Vučić |
Forveri | Ivica Dačić (starfandi) |
Eftirmaður | Ivica Dačić (starfandi) |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 28. september 1975 Belgrad, Serbíu, Júgóslavíu |
Þjóðerni | Serbnesk |
Stjórnmálaflokkur | Serbneski framfaraflokkurinn |
Maki | Milica Đurđić |
Háskóli | Northwood-háskóli Háskólinn í Hull |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Ana Brnabić (f. 28. september 1975) er serbneskur stjórnmálamaður og fyrrverandi forsætisráðherra Serbíu. Hún er fyrsta konan sem hefur gegnt embætti forsætisráðherra í landinu og er auk þess önnur samkynhneigða konan í heimi sem hefur gegnt embætti ríkisstjórnarleiðtoga, á eftir Jóhönnu Sigurðardóttur á Íslandi.
Brnabić hóf þátttöku í serbneskum stjórnmálum árið 2016 þegar hún var skipuð ráðherra opinberrar stjórnsýslu og sveitastjórna í ríkisstjórn Aleksandars Vučić þáverandi forsætisráðherra. Áður hafði Brnabić unnið í áratug í serbneskri stjórnsýslu og hjá ýmsum alþjóðastofnunum.[1]
Árið 2017 var Aleksandar Vučić kjörinn forseti Serbíu. Hann tók við forsetaembættinu í júní sama ár og tilnefndi Brnabić til að taka við af sér sem forsætisráðherra. Brnabić varð forsætisráðherra Serbíu þann 29. júní og hvatti við það tilefni serbneska þingið til að hjálpa henni að nútímavæða samfélag Serbíu með því að endurreisa hagkerfi landsins og berjast gegn spillingu.[1]
Brnabić var óflokksbundin þegar hún tók við embætti forsætisráðherra en árið 2019 gekk hún í serbneska Framfaraflokkinn, stjórnarflokk Vučićs forseta. Þótt forsetaembætti Serbíu eigi að heita táknrænt og að mestu valdalaust er Vučić enn almennt talinn valdamesti maður í Serbíu og stjórnarandstæðingar hafa sakað Brnabić um að vera handbendi eða strengjabrúða hans. Brnabić sjálf hefur ekki neitað þessu og hefur jafnvel gengist við því að Vučić starfi sem „leiðbeinandi“ hennar.[2]
Þótt útnefning Brnabić sé talið framfaraskref í réttindabaráttu hinsegin fólks í Serbíu hefur Brnabić sætt gagnrýni fyrir að neita að útmála sjálfa sig sem málsvara hinsegin samfélagsins. Meðal annars studdi hún ekki frumvarp um lögleiðingu á hjónabandi samkynhneigðra í Serbíu árið 2016 og hefur sagt að hún vilji ekki „vera stimpluð sem samkynhneigður ráðherra, alveg eins og samstarfsmenn [hennar] vilja ekki vera skilgreindir sem gagnkynhneigðir.“[1] Árið 2017 varð Brnabić hins vegar fyrst serbneskra forsætisráðherra til að sækja gleðigöngu.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Pétur Magnússon (16. júlí 2017). „Fordómar í garð forsætisráðherra“. Morgunblaðið. Sótt 11. mars 2020.
- ↑ „Brnabić: Vučić da ima ulogu mentora nad premijerom“ (serbneska). Danas. 6. júní 2017. Sótt 11. mars 2020.
- ↑ „Serbia's first openly-gay Prime Minister Ana Brnabic joins hundreds of marchers at LGBT pride event“. The Independent. 17. september 2017.
Fyrirrennari: Ivica Dačić (starfandi) |
|
Eftirmaður: Ivica Dačić (starfandi) |