Thomas Mann
Paul Thomas Mann (6. júní 1875 — 12. ágúst 1955) var þýskur rithöfundur sem einkum er þekktur fyrir langar skáldsögur sem innihalda greiningu og háðsádeilu á þýskt samfélag. Mann flýði land eftir valdatöku nasista í Þýskalandi og var einn af helstu gagnrýnendum Þriðja ríkisins. Hann fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1929 fyrir Buddenbrooks sem var fyrsta skáldsaga hans.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Thomas Mann fæddist í Lübeck í eina af betri fjölskyldum borgarinnar. Eftir dauða föður síns hætti Thomas námi og flutti ásamt móður sinni og systkinum til München þar sem hann bjó fram til 1933. Hann vann fyrst á skrifstofu tryggingafélags en frá 21 árs aldri fékkst hann nær eingöngu við ritstörf. Hann skrifaði smásögur og greinar í tímarit en öðlaðist fyrst frægð með skáldsögunni Buddenbrooks (1901). Bókin byggist að miklu leyti á sögu Mann-fjölskyldunnar og barnæsku höfundarins.
Mann giftist Katia Pringsheim árið 1905 og átti með henni sex börn. Dagbækur hans benda til þess að hann hafi verið samkynhneigður en hann átti aldrei í sambandi með öðrum karlmanni. Mann lifði rólegu fjölskyldulífi næstu árin þrátt fyrir umrót í Þýskalandi, heimsstyrjöld og stofnun Weimar-lýðveldisins sem Mann studdi opinberlega. Hann skrifaði Töfrafjallið (Der Zauberberg) á árunum 1913-1924.
Þegar nasistum óx ásmegin í Þýskalandi hélt Mann ýmsar ræður gegn stefnu þeirra sem hann taldi villimannslega og ósamrýmanlega menningarþjóð eins og þeirri þýsku. Frægust er líklega Appell an die Vernunft sem hann hélt í október 1930. Eftir valdatöku þeirra flýði hann land ásamt fjölskyldu sinni. Hann bjó á ýmsum stöðum í Evrópu, einkum þó í Sviss, og flutti síðan til Bandaríkjanna árið 1938. Þar kenndi hann við Princeton-háskóla. Á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar vann hann í ýmsum nefndum sem aðstoðuðu evrópska flóttamenn. Hann tók einnig upp stuttar tölur sem beindust gegn Hitler og Þriðja ríkinu og var útvarpað af BBC, meðal annars í Þýskalandi í óþökk þarlendra stjórnvalda. Mann vann í fjórleiknum Joseph und seine Brüder á þessum árum og skrifaði enn fremur skáldsöguna Lotte in Weimar (1939) sem fjallar um Johann Wolfgang von Goethe.
Mann varð fyrir vonbrigðum með þá stefnu sem bandarískt samfélag tók eftir seinni heimsstyrjöldina (sjá McCarthyismi). Árið 1952 flutti hann aftur til Sviss eftir að hafa verið sakaður um fylgispekt við Stalín í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Hann bjó í þorpinu Kilchberg til dauðadags. Síðustu verk hans voru Doktor Fástus (1947) og Der Erwählte (1951). Thomas Mann lést vegna æðakölkunar í ágúst 1955.