Sigursteinn Másson
Sigursteinn Róbert Másson (fæddur 11. ágúst 1967) er íslenskur kvikmyndagerðarmaður.
Sigursteinn hefur fengist við kvikmyndagerð meðal annars sem handritshöfundur og má þar helst nefna heimildarmyndina Aðför að lögum, og þáttaraðirnar Sex í Reykjavík og Sönn íslensk sakamál sem sýnt hefur verið í íslensku sjónvarpi. Sönn íslensk sakamál fékk Edduverðlaun á Edduhátíðinni árið 1999 sem besta heimildarmyndin en þeir Björn Brynjúlfur Björnsson og Viðar Garðarson voru framleiðendur að þeim þáttum en Sigursteinn handritshöfundur. Þar áður var hann framleiðandi og annar tveggja handritshöfunda að "Aðför að lögum" um hin svokölluðu Geirfinns- og Guðmundarmál. Frá árinu 1989 starfaði Sigursteinn sem fréttamaður á Bylgjunni og einnig á Stöð 2 frá 1991 til 1996.
Sigursteinn starfaði sem formaður Geðhjálpar frá árinu 2001 til 2007. 2006 var hann kjörinn formaður Öryrkjabandalags Íslands og að nýju formaður Geðhjálpar frá 2009 til 2011. 2008 sagði Sigursteinn af sér formennsku í ÖBÍ vegna ágreinings um breytingar á hússjóði Öryrkjabandalagsins, sem Sigursteinn taldi nauðsynlegt að ráðast í, en varð einu atkvæði undir í atkvæðagreiðslu Aðalstjórnar ÖBÍ. Frá árinu 2003 til 2006 og frá 2008 hefur hann starfað að dýraverndunarmálum með Alþjóðadýraverndunarsjóðnum IFAW og frá 2012 setið í stjórn Dýraverndarsambands Íslands. Frá 2007 hefur Sigursteinn verið í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins.
Frá 2009 vann Sigursteinn ásamt Luciano Dutra að heimildarmyndagerð um "Brasilíufarana", hóp Íslendínga sem flutti búferlum til Suður Brasilíu á ofanverðri 19. öld.